Leita í fréttum mbl.is

Færsluflokkur: Íþróttir

já út á gólfið,ekkert stress... því nú er kominn tími til að dansa!

Ég átti mín slökustu móment í djammlífinu síðan ég varð klúbbfær um seinustu helgi þegar við Gunni skelltum okkur í Skaftafell með litlu systur og vinkonu hennar á sjálfa verslunarmannahelgina. Ég skil ekki alveg hvað mér gekk til að fara á þennan annars ágæta stað um verslunarmannahelgi.. Þrátt fyrir það var bara nokkuð gaman. Fyrir utan annars nokkuð kaldar og hávaðasamar nætur. Þetta er einhver ládeyða sem ég þarf að rífa mig upp úr sem fyrst. Til þess að blása smá lífi í tuskurnar er ég að spá í að skella mér á dansnámskeið hjá ,,So you think you can dance,, kallinum (Karaty e-ð...)í WC eftir tvær vikur. Ég læri þá kannski e-r ný spor sem yrði gaman að sýna í bænum við vonandi góðar undirtektir. Finn að ég þarf að rifja upp gamla neistann sem hefur verið hálfslökktur síðan Hverfisbarinn fór að verða staður fyrir kjötbollur og gríska gæja sem heita Helios. Ég er að vona að hún vinkona mín hún Sísí sýni kannski áhuga á að koma með mér?.... Aðrir eru einnig velkomnir. Kostar held ég bara e-n 6000 kall fyrir heila helgi. Þrátt fyrir gífurlega sannfæringu um eigin getu á danssviðinu er ég samt að spá í að fara á byrjendanámskeið... Það er betra að vera stjarna innan um meðalljón heldur en kjáni innan um atvinnumenn.

Anna = Tiger woman

Fann þessa lýsingu á sjálfri mér á Ármanns síðunni. Hef ekki hugmynd hver skrifaði þetta en skemmtilegt er það:

 

Anna er ofurkona og verðandi sjúkraþjálfari.  Vann það til afreka að vera MR-massinn ár eftir ár.  Anna er jafnvíg á flestar greinar frjálsra íþrótta.  Lyftir öllu sem að hendi er næst og getur þvegið þvotta á magavöðvunum.
P.s. Tiger woman viðurnefnið fékk ég þegar ég bjó á Ítalíu sem unglingur. Þar var ég að keppa í frjálsum fyrir skólann á e-u móti, skólasystur minni fannst ég full kappsöm í keppninni og sagði þetta við mig, að ég væri eins og tiger woman í þessum ham. Skemmtilegt...

Handbendi djöfulsins

Sem endranær var ég með krakkana mína í frjálsum á æfingu á fimmtudaginn. Ég var með nýjan hóp af krökkum sem var einungis skipaður af tuttugu stykkjum af 7 ára strákum. Það er óhætt að segja að það var fjör Pinch Ærslagangurinn mikill og svona eins og vera ber. Krakkarnir sitja allir fyrir framan mig og ég er að segja þeim frá húsreglum og svona... Ég minnist á þagnarmerkið sem er útrétt hönd með ýmsum útfærslum. Sumir strákanna vildu hafa það á einn hátt og aðrir annan. Allt í góðu... ég fer svo að sýna ýmsar útfærslur en segi þeim að þetta þýði allt það sama hvernig sem ég geri það... hvort sem ég er með lokaðan hnefa eða einn putta úti eða hvað. Ein af þessum handbendingum var svo rokkaramerkið... eða kýr-merkið eins og ég kýs að kalla það:

 

rock´nroll

 

Þá segir einn strákurinn mjög alvarlegur:

Þetta er alveg bannað, þetta þýðir að þú sért að fucka guði!!!!!

 

Ég hef bara aldrei vitað annað eins.... við sprungum öll úr hlátri sem vorum þarna.... hvar læra börn svona hluti spyr ég nú bara?


Fræðsla fyrir íþróttaiðkendur og þjálfara

Ég hef lengi gengið með þá hugmynd í hausnum á hvaða hátt fyrirbyggjandi fræðslu til íþróttamanna væri best á kosið. Margt sem mér hefur dottið í hug, þ.á.m. að á eftir hverri íþróttasamantekt á sunnudögum á Ríkissjónvarpinu væri hægt að hafa ca. 5 mín. innskot með fróðleiksmolum. Þetta er sama bara hugmynd en vel framkvæmanleg ef viljin er fyrir hendi. Það er þó margt sem ekki er hægt að kenna nema maður á mann en þó er líka ýmislegt sem hægt er að taka til í handraðanum. Það er t.d. hægt að kenna fólki ýmislegt um líkamstöðu og beitingu með sjónrænni kennslu. Ef það er e-ð sem ég hef lært í sjúkraþjálfuninni þá er það að vitlaus líkamsbeiting skilar sér í næstum 100% tilfella í e-s konar einkennum, ef ekki núna þá síðar. Manneskja sem er undir meira álagi líkamlega annað hvort tengdu vinnu eða íþróttum fær mjög fyrirséð meiðsli út frá því hvaða líkamstýpa hún er og hvernig hreyfingar eru í liðamótum hans. Allt sögð saga en ég held að fólk oft geri sér grein fyrir því að það er að beita sér vitlaust en er of latt til að gera e-ð í því. Nákvæmlega þetta sama fólk fer til sjúkraþjálfara, hnykkjara, nuddara eða annarra aðila og ætlast til að vandamálið sé lagað án þess að það þurfi að leggja e-ð af mörkum.

Manneskja sem er með skekkju í líkamanum lagast ekki með hnykkingu eða nuddi!!!! Þessar aðferðir eru tímabundin lausn á vandamáli sem lagast ekki með þessum aðferðum.

Það eina sem dugar til að rétta af skekkju er að teygja á of stífum vöðvum og æfa vöðva sem eru of stuttir. Einstaklingur sem fer alltaf í ræktinga 3x í viku og gerir alltaf nákvæmlega sömu æfingarnar styttist í sumum vöðvum en slappast í öðrum og niðurstaðan verður........ skekkja. Fjölbreytni í æfingum er gulli betri. Það er líka sögð saga að ef einstaklingur finnur verk.... og heldur áfram að hjakkast í honum endar í meiðslum.

Ein algengasta brenglunin sem sést í líkamsræktar stöðvum í dag er spegla-syndromið. Einstaklingar sem æfa bara vöðvana sem þeir sjá í speglunum. Mjög algengt!!!! Vöðvarnir sem sjást ekki í speglinum eru þó yfirleitt vöðvarnir sem þurfa hvað mesta umhyggju, aftanlærisvöðvarnir, rassvöðvarnir og bakvöðvarnir.  Ég hef séð nógu mörg dæmi til að ég geti kallað þetta syndrome.

Oft sem áður þegar ég er stödd í Laugum, sé ég fólk sem annað hvort framkvæmir æfingar vitlaust, beitir sér vitlaust við æfingarnar, er með mjög ranga líkamsstöðu eða veit bara yfirhöfuð ekkert hvað það er að gera þarna. Ég þarf svo sannarlega að bíta á jaxlinn til að segja ekkert. Það myndi sennilega líka í flestum tilfellum bara fnussa við því ef ég myndi leiðrétta það. Ég hef óendanlega þrá til að ausa úr viskubrunni mínum. Það er þó vissara að halda sér á mottunni stundum. Ég vildi bara að fólk hefði almennt jafn mikinn áhuga á svona hlutum eins og ég.... en það fer því miður lítið fyrir því.

 Ég hef hugsað mér þó að gefa vinum og vandamönnum nokkra punkta um líkamsbeitingu og þjálfun af og til á þessari síðu héðan í frá... svona til að fá útrás fyrir innbyggða spennu. Ég ætla að byrja á nokkrum punktum um ofþjálfun fyrst. Njótið :)

overtraining_one

Ef grunur er um ofþjálfun skal einstaklingur undir eins draga úr álagi á æfingum, fara til læknis og athuga ástandið áður en þjálfun er haldið áfram. Ofþjálfun getur valdið meiðslum, sjúkdómum og síðast en ekki síst langvarandi afturför í getu. Einkenni hér fyrir neðan skal ávallt taka alvarlega og bregðast við af alvöru. 

Hvað er ofþjálfun:  Ofaukið álag vegna æfinga og hugsanlega annarra þátta sem orsakar langvarandi afturför í afkastagetu. Venjulega tengt lífeðlisfræðilegum og/eða sálrænum breytingum. Einkenni geta varað í margar vikur eða mánuði.

Nokkur einkenni ofþjálfunar:

Minnkuð afkastageta og árangur
Endurheimt tekur lengri tíma
Minnkað álagsþol
Minnkaður vöðvastyrkur
Minnkuð samhæfing
Hækkaður blóðþrýstingur
Hækkaður hvíldarpúls
Hækkuð öndunartíðni
Hækkaður púls og öndunartíðni við submaximal álag (submaximal= t.d. skokk)
Langvarandi þreyta
Svefnleysi
Svitakóf
Átvandamál (minnkuð list, anorexia, bulemia)
Höfuðverkir / verkir í vöðvum / aðrir verkir eða óþægindi
Hækkað CRP (C-reactive protein í vöðvum)-Skoðast hjá lækni!
Sálræn einkenni um ofþálfun:
Minnkuð áhugahvöt
Almennt áhugaleysi
Minnkað sjálfsálit og sjálfsmat
Tilfinningalegt ójafnvægi(pirringur, reiði)
Einbeitingaörðugleikar
Aukin viðkvæmni fyrir streitu
Keppnishræðsla
Persónuleikabreytingar
Þunglyndi
Einkenni ofþálfunar frá ónæmiskerfi:
Aukin tíðni veikinda og ofnæmis
Smá sár gróa hægar
Bólga í eitlum
Kuldatilfinning (kaldsviti)
Óeðlilegur hiti eftir æfingu
Er hægt að sjá ofþjálfun fyrir?:
Þeir sem æfa mikið og geta verið í áhættuhópi þurfa að:
Læra að hlusta á “rödd líkamans”
Vera á varðbergi ef þeir finna endurtekið fyrir þreytu og þyngslum á æfingum
Vera á varðbergi við langvarandi minnkaða áhugahvöt
Fylgjast með morgunpúlsi
Svefnleysi og svitakóf
Konur þurfa að fylgjast með óreglu eða stöðvun blæðinga
Þjálfarar þurfa að vera á varðbergi gegn ýmsum breytingum hjá einstaklingum:
Minnkuðum árangri, þreytu og þyngslum á æfingum
Minnkaðri afkastagetu og álagsþoli
Persónuleika- og skapgerðarbreytingum
Minnkaðri áhugahvöt og áhugaleysi
Aukinni tíðni veikinda og meiðsla
Keppnishræðslu
Átvandamálum
Næst hugsa ég að ég geri úttekt á algengum röngum líkamsstöðum... bíðið spennt  :)

Heimsmeistari mikillega mægir þú ætíð renna um völl megir þú og þínir vegs verða að auðnusporum öll

Við Sísí vinkona vorum á spjallinu um daginn og vorum að kvarta undan tíðinda litlum afrekum á hlaupabrautinni. Áttuðum okkur á því að Afrekalisti FRÍ í frjálsum hefur snuðað okkur um afrek. Ég áttaði mig á því að það vantaði talsvert af mínum bestu áröngrum á vellinum til að mynda í nokkrum hlaupum og stökkvum. Þá datt okkur einmitt í hug að það þyrfti að vera viðauki við þá annars ágætu síðu.... svona fyrir þá sem hafa verið mikið erlendis sem skiptinemar eins og Sísí sem gefur skýringu á annars frekar slökum tímabilum í kringum þau ár. Sömuleiðis hjá mér þá hef ég verið meidd nokkuð samfellt síðan ég var 16 ára, það skýrir af hverju afrekaskráinn inniheldur fá afrek eftir árið 2000. Einnig datt okkur í hug að setja líka viðauka um afrek fyrir utan völlinn, eins og t.d. í lyftingasalnum þar sem mín helstu afrek hafa verið gerð síðustu ár, ég held að það myndi vekja frekar áhuga hjá fólki ef ég segði því að ég væri rétt rúmlega 60 kg kona og hefði tekið 80 kg í bekkpressu og 160 kg í hnébeygju frekar en ef ég hefði sagt þeim að ég hefði stokkið rúmlega 1.60m í hástökki á seinasta ári... það virðist allavegna vekja meiri athygli hjá strákunum. Þannig að eins og þið skiljið þá er nauðsynlegt að geta komið svona upplýsingum áleiðis svo að mannorð manns bíði ekki hnekki af afreksleysinu. Það stendur samt til að bæta úr þessum skorti á afrekum... vonandi að skrokkurinn verði kominn í lag fyrir sumar.

Eins og margir vita, þá hafa menn sem iðka kraftlyftingar gaman að semja vísur og níð um félaga sína. Ekki ætla ég að vera svo fræg núna enda ekki kraftlyftingakona, en fékk þó lánaða vísu af heimasíðu Steve Gym sem ég álpaðist óvart inn á um daginn, en eigandi Steve Gym er Stefán Hallgrímsson, frjálsíþróttamaður með meiru.

HNÉBEYGJAN

 

Langt niður við veginn,inn í æfingastöð
heyrðist ungur maður segja af hreinni kvöð:
- Það er sama hvað ég geri,ég er alltaf fótafúinn,
svo furðanlega máttlaus,þreklaus og lúinn.

Hann reyndi fótréttur,fótkrull, og fleiri bekki slíka,
fótpressuna æfði hann einnig mikið líka.
Svona voru æfingarnar sem hann gerði hér.
-Hann svindlaði í rauninni bara á sjálfum sér.

Frá horninu í stöðinni þar sem þeir sterku taka á,
í stórkostlegum átökum,þar sem árangur má sjá!
Þar sem stálharðar krumlur í stöngina rífa,
þar sem stórfengleg gleði og reiðiöskur blífa.

Þar sem hrikalegir molar á mikilyrðum skiptast,
og mannslíf eru í hættu er þungu lóðin lyftast.
-Mátti heyra djúpa röddu frá manni eins og tré,
á meðan hann vafði sig hroðalega um hné...

-Hlæjandi um leið og hann bætti stóru lóði á,
-lygin hún er magnvana sannleikanum hjá:
-Þú hefur strákur alltof lengi samviskuna svæft.
-Sjáðu til,þú hefur aldrei HNÉBEYGJUNA æft!

 

og önnur:

Vaxtarrækt - Fegurðarkreppa

 

Misjafnir af sauðasort
sér af fegurð beita,
að kreppast á er kjarnasport
kreppungar þar heita!

Saddir af hungri hoppa á svið
hnyklandi vöðva og sinar,
hyllir þá óspart allskonar lið
sem andlegan sársauka linar.

Hver vöðvi máttlaus og magur
mun kreppast af sýningarþrá,
næringarskortur þykir nálega fagur
og nýtur þeim virðingar hjá.

Sá mun standa að vígi verst
sem virðist heill og digur,
sá er hefur mjókkað mest
mun þar hljóta sigur!

Gaman af þessu. Slóðin er: http://www.mmedia.is/eag/kara_visur.php


Jæja.. nú er mér nóg boðið!

Ég er ekki að trúa þessu... bakið á mér er í hönki núna. Sjúkraþjálfarinn er ekkert að gera fyrir mig og hef ekki getað sofið almennilega í svona viku núna. Ég hef talsverðar áhyggjur af því að þeir hafa hundsað aukaeinkennin sem ég hef haft fyrir utan bakið og hafi ekki skoðað mig nógu vel. Ég held að annað hvort séu þetta séu bara e-r hysterísk einkenni hjá mér (s.s. semi-andlegt) eða þá að það er e-að mikið að í stoðkerfinu. Ég er nokkuð klár á því að þau einkenni sem ég er með núna eru ekki frá brjósklosinu af því ég held að það sé svo til gróið. Útaf öllu sem ég er að læra núna í sjúkdómafræði stoðkerfis í skólanum er ég farin að efast svolítið um vinnubrögðin hjá þessum körlum. Þeir skoðuðu ekkert á mér mjaðmagrindina fyrir utan SI-liðinn og hafa ekkert skoðað almennilega stöðuna á fótum og hnjám. Líka sú staðreynd að spjaldbeinið á mér var svoleiðis rammskakkt þegar ég byrjaði hjá þeim vísar að mínu mati til þess að það er e-r undirliggjandi orsök fyrir þessari skekkju sem ekki er búið að laga. Það er alltaf verið að hamra á klínískri rökhugsun við okkur í skólanum... ég held að þeir ættu að skella sér á námskeið! Þetta er líka bara ekkert eðlilegt að lítið og saklaust brjósklos, þó reyndar á tveimur stöðum, geti verið meira en heilt ár að lagast.... það er e-ð spúkí við þetta.

Aðal ástæðan fyrir því að ég er að pirra mig á þessu er sú að Meistaramót Íslands í frjálsum er um helgina og ég auðvitað get ekki keppt. Ég var svo abbó út í þessar stelpur sem voru að keppa í hástökki að ég var alveg að deyja. Ég hefði að öllum líkindum verið í baráttunni um gullið. Ég hugsa oft um það hvað ég hefði getað stokkið í fyrra þegar ég var önnur... þegar ég var að stökkva yfir rúmlega 1.60 og var með svo mikla lömunarverki og krampa í stökkfætinum að ég gat varla gengið!!! Ég var í besta formi sem ég hef verið í mörg ár í fyrra. Frekar létt á vigt en samt mjög sterk. En svona er þetta, mér er bara e-n veginn ekki ætlað að ná langt í frjálsum. Ég hugsa líka oft um það hvað hefði orðið úr mér hefði ég farið að æfa e-a aðra íþrótt. Ég held að ég sé með hugarfar meistara... alltaf tilbúin til að leggja aukalega á mig og geri allt til að ná árangri, jafnvel of mikið. Þrjóskan í mér leyfir mér ekki a gefast upp á frjálsum. Ég er líka e-n veginn þannig að ef ég ákveð að ég ætla að geta e-ð þá klára ég það, hvort sem það er skóli, íþróttir eða annað.

En jæja þá er best að fara að halda áfram að læra fyrir prófið á mánudaginn, almenn sjúkraþjálfunarfræði, ég held að ég alheiminum hafi ekki verið fundinn upp jafn leiðinlegur kúrs á háskólastigi. Hann er svo leiðinlegur að ég er búin að vera að fresta því í allan dag að fara að læra... og klukkan er að verða hálfellefu að kvöldi... must be pretty badShocking


Þessi yndislegu börn

Þau eru svo yndisleg krakkarnir sem eru að æfa hjá mér að ég verð bara að segja ykkur frá þessu. Þegar ég var að koma á æfingu áðan segir einn strákurinn við mig:

S: Varstu í útlöndum?..

Ég: Nei! Af hverju heldurðu það? 

S: Æ, þú ert bara eitthvað svo brún í framan?... (og ég er b.t.w. eins og eggjahvíta í framan ég er svo glær).

Stuttu seinna segir hann þegar ég var e-ð að sýna honum til verka,

S: Nei, ég sé það núna, þú hefur ekki verið útlöndum, þér er svo kalt á höndunum!!!!!

Oh, þau eru svo mikil yndi stundum. Sérstaklega er líka gaman þegar þau eru að reyna að lýsa einhverjum verkjum sem þau hafa. Einn sagði t.d. áðan: Ég skil þetta ekki bara, mér er svo ótrúlega illt í fætinum, þetta kom bara allt í einu þegar ég var að hlaupa, ég held að ég hafi sprengt æð eða eitthvað!!!! Annar sagði líka um daginn: Mér er svo illt í æðinni í lærinu að ég get bara ekki hlaupið... og haltraði svo í burtu alveg þangað til hann byrjaði að hlaupa alveg óvænt eðlilega :) Ég fæ líka reglulega frá þessum yngstu: Mér er svo illt í puttanum að ég get ekki hlaupið... eða: Ég er með sár á hendinni og þá er svo vont að hlaupa.

Ég fékk ágætis áminningu um það núna í vikunni að maður á samt ekki alltaf að hundsa það þegar krakkarnir eru að kvarta undan verkjum. Einn strákur sem er að æfa hjá mér, svolítið í þéttari krantinum, er alltaf að kvarta undan verkjum í fótunum, en þeir eru aldrei á sama stað og bróðir hans er krónískur nöldrari, þannig að ég hélt að hann væri kannski bara að aumingjast og ekki að nenna að gera það sem ég setti honum fyrir. Svo ákvað ég að skoða á honum fæturna á seinustu æfingu til að skoða hvort það væri í raun og veru e-ð að og þá kom í ljós að drengurinn er með mjög slæma plattfætur á báðum sem veldur honum bólgum og verkjum í hnéliðnum og mögulega alla leið upp í mjaðmir. Sinar og liðbönd öll frekar trosnuð og laus. Ég skrifaði strax bréf með honum heim þar sem ég sagði þeim að fara með hann til læknis. Hann þarf greinilega annað hvort að fara í talsverða sjúkraþjálfun eða skipta um íþrótt. Heppilegt að við erum einmitt núna að læra um sjúkdómafræði stoðkerfis í skólanum þannig að ég náði að kveikja á einkennunum. Hefði ég bara verið e-r annar, asni sem kann ekki neitt eða e-r 16 ára stelpa þá hugsa ég að strákurinn hefði haldið áfram að hlaupa á þessu og mögulega eyðilagt á sér hnéliðinn fyrir lífstíð. En núna veit hann allavegna af þessu.

Ég hugsa aldrei út í það að hvort fólki finnist kannski ekki gaman að hlusta á rausið í mér um hin og þessi meiðslin og hvað eigi að forðast og so on. Ég ætla að vona að fólk finnist ég ekki vera mikla mig fyrir vikið. Ég hugsa bara alltaf, ef e-r hefði sagt mér þá hluti sem ég veit í dag fyrir kannski  nokkrum árum þá hefði ég getað sparað mér mikinn tíma í að vera meidd og ef ég get hjálpað e-m með þessu rausi og kannski komið í veg fyrir allavegna ein slæm meiðsli þá finnst mér það réttlæta rausið.

oh.. og ég sem ætlaði bara að skrifa um strákinn efst Pinch


Höfundur

Anna Heiða Gunnarsdóttir
Hér er stuð, hér er fjör... hvað er um að vera?
Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband