Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, mars 2007

Fræðsla fyrir íþróttaiðkendur og þjálfara

Ég hef lengi gengið með þá hugmynd í hausnum á hvaða hátt fyrirbyggjandi fræðslu til íþróttamanna væri best á kosið. Margt sem mér hefur dottið í hug, þ.á.m. að á eftir hverri íþróttasamantekt á sunnudögum á Ríkissjónvarpinu væri hægt að hafa ca. 5 mín. innskot með fróðleiksmolum. Þetta er sama bara hugmynd en vel framkvæmanleg ef viljin er fyrir hendi. Það er þó margt sem ekki er hægt að kenna nema maður á mann en þó er líka ýmislegt sem hægt er að taka til í handraðanum. Það er t.d. hægt að kenna fólki ýmislegt um líkamstöðu og beitingu með sjónrænni kennslu. Ef það er e-ð sem ég hef lært í sjúkraþjálfuninni þá er það að vitlaus líkamsbeiting skilar sér í næstum 100% tilfella í e-s konar einkennum, ef ekki núna þá síðar. Manneskja sem er undir meira álagi líkamlega annað hvort tengdu vinnu eða íþróttum fær mjög fyrirséð meiðsli út frá því hvaða líkamstýpa hún er og hvernig hreyfingar eru í liðamótum hans. Allt sögð saga en ég held að fólk oft geri sér grein fyrir því að það er að beita sér vitlaust en er of latt til að gera e-ð í því. Nákvæmlega þetta sama fólk fer til sjúkraþjálfara, hnykkjara, nuddara eða annarra aðila og ætlast til að vandamálið sé lagað án þess að það þurfi að leggja e-ð af mörkum.

Manneskja sem er með skekkju í líkamanum lagast ekki með hnykkingu eða nuddi!!!! Þessar aðferðir eru tímabundin lausn á vandamáli sem lagast ekki með þessum aðferðum.

Það eina sem dugar til að rétta af skekkju er að teygja á of stífum vöðvum og æfa vöðva sem eru of stuttir. Einstaklingur sem fer alltaf í ræktinga 3x í viku og gerir alltaf nákvæmlega sömu æfingarnar styttist í sumum vöðvum en slappast í öðrum og niðurstaðan verður........ skekkja. Fjölbreytni í æfingum er gulli betri. Það er líka sögð saga að ef einstaklingur finnur verk.... og heldur áfram að hjakkast í honum endar í meiðslum.

Ein algengasta brenglunin sem sést í líkamsræktar stöðvum í dag er spegla-syndromið. Einstaklingar sem æfa bara vöðvana sem þeir sjá í speglunum. Mjög algengt!!!! Vöðvarnir sem sjást ekki í speglinum eru þó yfirleitt vöðvarnir sem þurfa hvað mesta umhyggju, aftanlærisvöðvarnir, rassvöðvarnir og bakvöðvarnir.  Ég hef séð nógu mörg dæmi til að ég geti kallað þetta syndrome.

Oft sem áður þegar ég er stödd í Laugum, sé ég fólk sem annað hvort framkvæmir æfingar vitlaust, beitir sér vitlaust við æfingarnar, er með mjög ranga líkamsstöðu eða veit bara yfirhöfuð ekkert hvað það er að gera þarna. Ég þarf svo sannarlega að bíta á jaxlinn til að segja ekkert. Það myndi sennilega líka í flestum tilfellum bara fnussa við því ef ég myndi leiðrétta það. Ég hef óendanlega þrá til að ausa úr viskubrunni mínum. Það er þó vissara að halda sér á mottunni stundum. Ég vildi bara að fólk hefði almennt jafn mikinn áhuga á svona hlutum eins og ég.... en það fer því miður lítið fyrir því.

 Ég hef hugsað mér þó að gefa vinum og vandamönnum nokkra punkta um líkamsbeitingu og þjálfun af og til á þessari síðu héðan í frá... svona til að fá útrás fyrir innbyggða spennu. Ég ætla að byrja á nokkrum punktum um ofþjálfun fyrst. Njótið :)

overtraining_one

Ef grunur er um ofþjálfun skal einstaklingur undir eins draga úr álagi á æfingum, fara til læknis og athuga ástandið áður en þjálfun er haldið áfram. Ofþjálfun getur valdið meiðslum, sjúkdómum og síðast en ekki síst langvarandi afturför í getu. Einkenni hér fyrir neðan skal ávallt taka alvarlega og bregðast við af alvöru. 

Hvað er ofþjálfun:  Ofaukið álag vegna æfinga og hugsanlega annarra þátta sem orsakar langvarandi afturför í afkastagetu. Venjulega tengt lífeðlisfræðilegum og/eða sálrænum breytingum. Einkenni geta varað í margar vikur eða mánuði.

Nokkur einkenni ofþjálfunar:

Minnkuð afkastageta og árangur
Endurheimt tekur lengri tíma
Minnkað álagsþol
Minnkaður vöðvastyrkur
Minnkuð samhæfing
Hækkaður blóðþrýstingur
Hækkaður hvíldarpúls
Hækkuð öndunartíðni
Hækkaður púls og öndunartíðni við submaximal álag (submaximal= t.d. skokk)
Langvarandi þreyta
Svefnleysi
Svitakóf
Átvandamál (minnkuð list, anorexia, bulemia)
Höfuðverkir / verkir í vöðvum / aðrir verkir eða óþægindi
Hækkað CRP (C-reactive protein í vöðvum)-Skoðast hjá lækni!
Sálræn einkenni um ofþálfun:
Minnkuð áhugahvöt
Almennt áhugaleysi
Minnkað sjálfsálit og sjálfsmat
Tilfinningalegt ójafnvægi(pirringur, reiði)
Einbeitingaörðugleikar
Aukin viðkvæmni fyrir streitu
Keppnishræðsla
Persónuleikabreytingar
Þunglyndi
Einkenni ofþálfunar frá ónæmiskerfi:
Aukin tíðni veikinda og ofnæmis
Smá sár gróa hægar
Bólga í eitlum
Kuldatilfinning (kaldsviti)
Óeðlilegur hiti eftir æfingu
Er hægt að sjá ofþjálfun fyrir?:
Þeir sem æfa mikið og geta verið í áhættuhópi þurfa að:
Læra að hlusta á “rödd líkamans”
Vera á varðbergi ef þeir finna endurtekið fyrir þreytu og þyngslum á æfingum
Vera á varðbergi við langvarandi minnkaða áhugahvöt
Fylgjast með morgunpúlsi
Svefnleysi og svitakóf
Konur þurfa að fylgjast með óreglu eða stöðvun blæðinga
Þjálfarar þurfa að vera á varðbergi gegn ýmsum breytingum hjá einstaklingum:
Minnkuðum árangri, þreytu og þyngslum á æfingum
Minnkaðri afkastagetu og álagsþoli
Persónuleika- og skapgerðarbreytingum
Minnkaðri áhugahvöt og áhugaleysi
Aukinni tíðni veikinda og meiðsla
Keppnishræðslu
Átvandamálum
Næst hugsa ég að ég geri úttekt á algengum röngum líkamsstöðum... bíðið spennt  :)

Annríki

Æði strembin vika brátt að baki. Flutti fyrirlestur í fyrradag í skólanum sem er búinn að taka talsverðan tíma upp á síðkastið. Erfitt að standa í hópavinnu, oft erfitt að púsla saman lausum tíma hjá mörgum aðilum, sérstaklega þegar tímar eru til að verða kl.4-5 á daginn í skólanum. Búið að vera nóg að gera við þjálfun og vinnu líka og svo eru Gunni líka að klára lokaverkefnið sitt og ég hef reynt að hjálpa til við það. Ofan á þetta allt saman var fermingin hennar Betu systur á fimmtudaginn.

Ég sagði við mömmu fyrir athöfnina að ég ætlaði ekki að fara upp að altarinu og að ég ætlaði ekki að syngja.... við komum svo í kirkjuna og það fyrsta sem ég geri.... fara upp að altarinu og syngja!!! Séra Helgu Soffíu fannst svo sniðugt að þar sem við vorum svo fá sem vorum viðstödd að við myndum bara sitja öll upp við altarið og bað okkur um taka vel undir í söng. Hún má nú eiga það að hún gerði sérlega vel úr þessari athöfn. Hún náði á e-n hátt að gera athöfnina hátíðlega þrátt fyrir að það við værum bara 6 í kirkjunni eða svo. Veislan er svo á sunnudaginn. Það er nú talsvert umstang í kringum það. Veislan verður nú þó ekki stór, ca.30-40 manns.

Næsta vika verður ekki minna þéttsetin. Sérstaklega mánudagurinn. Það er margt sem er búið að sitja á hakanum upp á síðkastið. Þarf líka að klára mörg atriði og verkefni áður en ég fer út til Boston á miðvikudaginn. Hausinn á mér snýst eiginlega bara í hringi þegar ég fer að hugsa um það. Nýr kennari sem mætti í skólann í þessari viku, ákvað að setja fyrir ein þrjú verkefni, bæði einstaklings og hópaverkefni, og það á að skilast allt annað hvort núna fyrir páska eða daginn eftir páska... hell hole.....Þoli ekki svona asnaskap. Innan við mánuður í fyrsta próf og kennarar gera ekki annað en að dúndra á okkur verkefnum. Það er alltaf sama sagan. Ég er búin að vera núna þrjú ár í háskóla en maður virðist seint læra að svona er þetta alltaf.

 

En VVVVVÁÁÁÁÁÁÁ...... hvað ég hlakka til að fara út á miðvikudaginn W00t


Hugleiðing....

Þeir sem mig þekkja vita að ég er harður trúleysingi af verstu sort og hef verið síðan stuttu eftir fermingu. Ég á því bágt með mig núna þegar litla systa er að fara að fermast næstu helgi. Hún þylur trúarjátninguna í hvívetna af slíkri áfergju að mér sundlar við, fyrir utan að það skortir alla innlifun og meiningu í upplestrinum hjá henni. Hún les hana til minnis en ekki meiningar. Enda ekki við öðru að búast, kornung stúlkan sem ekki hefur ennþá myndað sér almennilega skoðun á lífinu og tilverunni. Ég man hvernig var að vera í þessari stöðu. Þegar maður er 14 ára veit maður lítið. Lífið hjá mér snérist um íþróttir, vini og sæta stráka, skólann, félagslíf og hugsanlega e-a tónlist líka. Það var enginn tími eða þroski til að hugsa um það hvað að vera trúaður er í raun og veru og hvort að það væri yfirhöfuð skynsemi í því að trúa á guð. Ég er sjóaðri í lífinu og tilverunni núna og tel mig vita betur. Systa veit afstöðu mína til þessara mála en samt reyndi ég ekki að troða skoðun minni upp á hana. Ég man að lífið var auðveldara þegar maður trúði því í raun og veru að allir færu til himnaríkis eftir dauðann og að það væri í raun og veru e-ð til sem heitir sál og guð. Það er dapulegra að vita að svo er ekki. Talsverður kvíði og óþægindi fylgja hugsunum um dauðann. Vissulega leiðinlegri kosturinn af tveimur. Ég tengi hugsanir um tilvist eftir dauðann við barnslega einlægni. Svipað því að trúa á jólasveininn sem barn. E-ð sem getur verið ágætt að segja börnum til að forðast spurninguna um dauðann en á ekki að vara mikið lengur en það. E-ð sem fullorðið fólk með viti ætti ekki að stunda. En þetta er vissulega bara mín skoðun. Þess vegna eins og áður sagði hef ég ekki lagt í það að telja systur minni hughvarft. Ég er nokkuð viss um að hún vex upp úr þessu. Enda klár stelpa.

Það versta þykir mér þó að þessar fermingar eru tímaskekkja. Það á að gefa þessum krökkum færi á að vaxa upp úr þessu. Mér sýnist þetta vera ansi gamalt samsæri innan kirkjunnar. Hafa ferminguna nógu snemma svo að  krakkkarnir átti sig ekki á því hvað þau eru að gera. Ég efast stórlega að þessi ca. 95% allra 14 ára barna á landinu (mín ágiskun) myndi ferma sig ef ferming yrði við 18 ára aldurinn í staðinn. Ég hugsa að það yrði frekar um 15% eða svo. Til að vera ekki að hvetja systu til að ferma sig bauð ég henni að hún fengi nákvæmlega sömu gjöf frá mér hvort sem hún myndi ferma sig eða ekki. Til að hvatinn til fermingar yrði ekki til staðar vegna gjafanna. Ég veit að mamma gerði hið sama. Það hafði greinilega lítil áhrif. Hún stóð við áætluð plön.

Annað sem ég hef áhyggjur af. Ef ég myndi vilja gifta mig e-n daginn. Hvers konar athöfn gæti það orðið? Ég vildi að það væri til e-s konar aðili sem gæti talað um ástina, lífið og skuldbindingu á fallegan hátt án þess að e-s konar guðlegt tal komi við sögu. E-ð sem væri samt hátíðlegra heldur en að gifta sig á einhverri skrifstofu. Meira svona einhvers staðar á fallegum stað í náttúrunni eða stað sem væri brúðhjónunum hjartanu nær. Ábendingar vel þegnar. Sé fyrir mér fullorðna manneskju sem er vel sjóuð í lífinu og ástinni og gæti talað af reynslu á fallegan hátt um hvað það er fallegt þegar tvær manneskjur hafa ákveðið að eyða lífinu saman.  Ég held að það sé ekki til slíkt embætti. Það mætti þó vel vera fyrir okkur sem erum trúlaus í heimi þar sem trú er jafn sjálfsögð og ristað brauð.


Vavavúva...

Erfið helgi að baki. Fór með 25 stykki af 9-11 ára skrímslum á Laugarvatn í æfingabúðir um helgina. Það tekur á...  Sérstaklega þar sem við Þórey vorum bara tvær með einu foreldri. Þetta tókst samt furðu vel.  Gekk allt smurt fyrir sig, engin meiðsli og gráturinn í lágmarki.  Það er helst að krakkarnir voru svo óþægir að það tók extra á fyrir okkur Þóreyju.  Þurftum að byrsta okkur nokkrum sinnum. Stoppuðum í Eden á bakleiðinni og fengum okkur ís. Leiðinlegt að sjá að staðurinn hefur misst gamlan sjarma. Man þegar ég fór þangað í æsku þá var alltaf troðfullt um helgar hvort sem það var vetur eða sumar. Það voru nokkrar hræður þar núna og lítið um stemningu. 

Fór annars líka á sérlega vel heppnaða árshátíð KHÍ á föstudagskvöldið.  Skemmtiatriði góð, maturinn frábær og salurinn flottur. Björgvin Franz sá um skemmtiatriði og var ógleymanlegur í því hlutverki. Við Gunni vorum manna duglegust á dansgólfinu. Er ekki frá því að ég hafi séð nýja danshlið á honum Gunna. Hann var alveg að slá mig út í flottum múvum... og þá er nú mikið sagt Happy

Núna tekur við ansi þétt prógram fram að páskum í verkefnum í skóla, hjálpa Gunna við verkefnið sitt og undirbúningi fyrir fermingu Betu og fleira. Förum svo út til Boston 28.mars og verðum í 11 daga. Það er eins gott að ég taki með mér námsbækur af því að stuttu eftir heimkomu taka við verkleg próf og beint á eftir bókleg. Þetta er ansi stíf önn núna. Mikið af erfiðum kúrsum sem gilda mikið í einingum talið. Það er varla að það sé tími til æfinga og vinnu. Setti nýtt met í slökum fjölda æfinga í seinustu viku... allt í allt tvær æfingar! Enda líður mér frekar illa í skrokknum núna. Ætla að taka mig á... og ég held ég sé bara farin núna á æfingu. Bið að heilsaaaaaaa......


The Secret

Á meðan ég átti gott skokk í Laugum í gærkvöldi sá ég einn besta Opruh þátt sem ég hef séð lengi. Hann var allavegna það góður að hann vakti mig til hugsunar. Umræðuefni þáttarins var DVD diskur sem hefur víst farið eins eldur í sinu um heimsbyggðina og kallast The Secret upp á ameríska vísu. Innihaldið er ekki kannski eins og við var búist.. ekki kvikmynd... heldur kennslutæki í því hvernig á að verða farsæll og hamingjusamur. Nokkrir fyrirlesarar sem breiða út boðskap þessa disks voru staddir í sjónvarpssal. Kenningar þeirra snérust um það að með því að hugsa jákvæðar hugsanir laði maður að sér jákvæða hluti, hvort sem það væri ást, peningar, farsæld eða annað. Með því hafi maður stjórn á eigin örlögum og með því að hugsa neikvæðar hugsanir þá hamli maður framförum og auki á óhamingju. Ráðgjafarnir ráðlögðu nokkrum gestum sjónvarpssal með vandræði sem herjuðu á þeim. Þar af var ein kona sem var í talsverðum fjárhagskröggum. Einstæð móðir með takmarkaðar tekjur og komin í mikla skuldasúpu. Átti mann sem skildi hana eftir eina uppi með allar skuldirnar og var hún frekar bitur til hans vegna þess. Þeirra ráðleggingar voru: Hættu að hugsa bara um að skrimta fram að næstu mánaðarmótum, hugsaðu þér lífið eins og þú eigir næga peninga, hugsaðu þér lífið að þú sért hamingjusöm. Ekki vera alltaf að einblína á það að þú sért í skuldasúpu. Einblíndu frekar á hvað þú ætlar að gera til að betrumbæta ástandið. Lærðu að fyrirgefa manninum fyrrverandi og umfram það að fyrirgefa, hugsaðu hvað þú lærðir af þessari reynslu. Hvernig þessi reynsla gerir þig að betri manneskju, lífsreyndari og öruggari. Ein konan sem var ráðleggjandi þarna sagðist ekki vilja vita hvað hefði komið fyrir fólkið sem leitaði leiðsagnar hennar. Það skipti hana engu máli hvort það hefði verið beitt ranglæti eða hvaða óhöppum manneskjan hefði lent í á ævinni. Það eina sem skipti hana máli var hvert mannsekjan ætlaði sér og hvað hún ætlaði að gera til að komast þangað. Nauðsynlegt til að komast áfram í lífinu væri að geta fyrirgefið það gamla og hugsa um það sem reynslu í gagnabankann. Mér fannst þetta góður hugsunarháttur.

Einn góður punktur sem hún kom með og ég hef haft ómeðvitað að leiðarljósi í mörg ár er : Fólk lærir hvernig það á að koma fram við þig eftir því hvernig þú kemur fram við þig sjálfur. Þannig að með því að tala fallega um sjálfan sig og hugsa góðar hugsanir um sjálfan sig þá kennir maður fólkinu í umhverfi sínu að þannig eigi það líka að gera. Þannig byggi maður upp gott sjálftraust og það sést augljólega utan á fólki ef það hefur gott sjálftraust. Fólk sem hefur gott sjálftraust er líklegra til að ná árangri og njóta farsældar.

Annað sem ég hugsa líka oft er hvað það er svo auðvelt að lifa lífinu bara í e-i móðu. Vera stjórnlaus, án markmiða og vera almennt ómeðvitaður um hvað maður getur gert til að vera hamingjusamur. Að vera glaður er hugarástand. Í hvert skipti sem ég er pirruð eða leið eða upplifi slæman dag reyni ég að minna sjálfa mig á að ég hef val: Ég get annað hvort haldið áfram í því hugarástandi sem ég er eða þá tekið þá meðvituðu ákvörðun að ég ætli að vera glöð. Það er bara svo miklu skemmtilegra að lifa lífinu glaður. Að vera hamingjusamur er líka að vera ánægður með það sem maður hefur, ég þarf ekki að eiga fína hluti, fínan bíl, fullkomna íbúð eða fullkomna fjölskyldu. Ég ákveð minn stað í lífinu og get meðvitað breytt þeirri stöðu með framkvæmdum og hugsunum. Ég ætla að rækta þá fjölskyldu sem ég á. Ég ætla að leggja allt í að vera góður vinur vina minna og góð kærasta. Ég ætla að leggja áherslu á að rækta þá hluti sem eru jákvæðir í lífi mínu, vinir sem eru jákvæðir og hafa minn hag og hamingju fyrir brjósti. Forðast að umgangast það fólk sem er neikvætt og dregur úr gleði minni. Ég ætla ekki að alltaf að hlakka til helgarinnar heldur hlakka líka til virku daganna. Hugsa á hverjum degi hvernig ég get varið þeim degi eins vel og ég get. Reyna að láta e-ð gott af mér leiða, að koma e-m öðrum til að brosa eða líða betur er afrek út af fyrir sig. Muna líka að á hverjum degi er hægt að búa til e-a minningu sem getur orðið ógleymanleg. Hver dagur býður upp á nýja möguleika. Ég ætla ekki að kvarta undan því sem að betur gæti farið í lífi mínu heldur gera e-ð í því. Finna leiðir til að vinna úr því. Ég ætla ekki að eyða orku minni í að vera reið út í einn eða neinn. Með því að eyða orku í það er ég að stoppa sjálfa mig í því að vera hamingjusöm og það kemur verst niður á sjálfri mér.

Kjarninn í þessum þætti var þó helst um það að hugarfar skiptir öllu þegar hamingja er annars vegar. Jákvæð orka dregur að sér aðra jákvæða orku. Vera meðvitaður um líf sitt og þá staðreynd að hlutirnir verða ekki að vera eins og þeir eru. Þú hefur máttinn til að breyta, sama á hvaða sviði það er. Mæli með því að þeir sem eru í krísu með sjálfan sig kíki á annað hvort þáttinn eða diskinn. Þetta var ágætis áminning á því hvaða hlutir skipta máli í lífinu. Muna að hamingja er val.. ekki áfangastaður sem maður kemst á þegar þetta verkefni er búið, eða á næsta ári, þegar þú ert búinn með skólann, hitta rétta manninn eða álíka.


Heimsmeistari mikillega mægir þú ætíð renna um völl megir þú og þínir vegs verða að auðnusporum öll

Við Sísí vinkona vorum á spjallinu um daginn og vorum að kvarta undan tíðinda litlum afrekum á hlaupabrautinni. Áttuðum okkur á því að Afrekalisti FRÍ í frjálsum hefur snuðað okkur um afrek. Ég áttaði mig á því að það vantaði talsvert af mínum bestu áröngrum á vellinum til að mynda í nokkrum hlaupum og stökkvum. Þá datt okkur einmitt í hug að það þyrfti að vera viðauki við þá annars ágætu síðu.... svona fyrir þá sem hafa verið mikið erlendis sem skiptinemar eins og Sísí sem gefur skýringu á annars frekar slökum tímabilum í kringum þau ár. Sömuleiðis hjá mér þá hef ég verið meidd nokkuð samfellt síðan ég var 16 ára, það skýrir af hverju afrekaskráinn inniheldur fá afrek eftir árið 2000. Einnig datt okkur í hug að setja líka viðauka um afrek fyrir utan völlinn, eins og t.d. í lyftingasalnum þar sem mín helstu afrek hafa verið gerð síðustu ár, ég held að það myndi vekja frekar áhuga hjá fólki ef ég segði því að ég væri rétt rúmlega 60 kg kona og hefði tekið 80 kg í bekkpressu og 160 kg í hnébeygju frekar en ef ég hefði sagt þeim að ég hefði stokkið rúmlega 1.60m í hástökki á seinasta ári... það virðist allavegna vekja meiri athygli hjá strákunum. Þannig að eins og þið skiljið þá er nauðsynlegt að geta komið svona upplýsingum áleiðis svo að mannorð manns bíði ekki hnekki af afreksleysinu. Það stendur samt til að bæta úr þessum skorti á afrekum... vonandi að skrokkurinn verði kominn í lag fyrir sumar.

Eins og margir vita, þá hafa menn sem iðka kraftlyftingar gaman að semja vísur og níð um félaga sína. Ekki ætla ég að vera svo fræg núna enda ekki kraftlyftingakona, en fékk þó lánaða vísu af heimasíðu Steve Gym sem ég álpaðist óvart inn á um daginn, en eigandi Steve Gym er Stefán Hallgrímsson, frjálsíþróttamaður með meiru.

HNÉBEYGJAN

 

Langt niður við veginn,inn í æfingastöð
heyrðist ungur maður segja af hreinni kvöð:
- Það er sama hvað ég geri,ég er alltaf fótafúinn,
svo furðanlega máttlaus,þreklaus og lúinn.

Hann reyndi fótréttur,fótkrull, og fleiri bekki slíka,
fótpressuna æfði hann einnig mikið líka.
Svona voru æfingarnar sem hann gerði hér.
-Hann svindlaði í rauninni bara á sjálfum sér.

Frá horninu í stöðinni þar sem þeir sterku taka á,
í stórkostlegum átökum,þar sem árangur má sjá!
Þar sem stálharðar krumlur í stöngina rífa,
þar sem stórfengleg gleði og reiðiöskur blífa.

Þar sem hrikalegir molar á mikilyrðum skiptast,
og mannslíf eru í hættu er þungu lóðin lyftast.
-Mátti heyra djúpa röddu frá manni eins og tré,
á meðan hann vafði sig hroðalega um hné...

-Hlæjandi um leið og hann bætti stóru lóði á,
-lygin hún er magnvana sannleikanum hjá:
-Þú hefur strákur alltof lengi samviskuna svæft.
-Sjáðu til,þú hefur aldrei HNÉBEYGJUNA æft!

 

og önnur:

Vaxtarrækt - Fegurðarkreppa

 

Misjafnir af sauðasort
sér af fegurð beita,
að kreppast á er kjarnasport
kreppungar þar heita!

Saddir af hungri hoppa á svið
hnyklandi vöðva og sinar,
hyllir þá óspart allskonar lið
sem andlegan sársauka linar.

Hver vöðvi máttlaus og magur
mun kreppast af sýningarþrá,
næringarskortur þykir nálega fagur
og nýtur þeim virðingar hjá.

Sá mun standa að vígi verst
sem virðist heill og digur,
sá er hefur mjókkað mest
mun þar hljóta sigur!

Gaman af þessu. Slóðin er: http://www.mmedia.is/eag/kara_visur.php


Höfundur

Anna Heiða Gunnarsdóttir
Hér er stuð, hér er fjör... hvað er um að vera?
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband