15.1.2007 | 14:30
Ráðstefna fyrir karla næstu helgi
Allir velkomnir aðeins fyrir karla..
Ath: námskeiðin eru flókin þannig að aðeins átta geta sótt hvert námskeið .Hvert námskeið tekur tvo daga og efnið er eftirfarandi:
Fyrri dagur
Hvernig á að fylla ísmolamót?
Skref fyrir skref með glærusýningu
Klósettrúllur vaxa þær á klósettrúlluhaldaranum?
Hringborðsumræður
Munurinn á ruslafötum og gólfi
Æfingar með körfuefni (teikningar og módel)
Diskar og hnífapör: fer þetta sjálfkrafa í vaskinn eða uppþvottavélina?
Pallborðsumræður nokkrir sérfræðingar
Að tapa getunni - Að missa fjarstýringuna til makans
Stuðningshópar
Læra að finna hluti - Byrja að leita á réttum stöðum í stað þess að snúa húsinu við gargandi
Opin umræða
Seinni dagur
Tómar mjólkurfernur: eiga þær að vera í ísskápnum eða í ruslinu
Hópvinna og hlutverkaleikir
Heilsuvakt: það er ekki hættulegt heilsunni að gefa henni blóm
PowerPoint kynning
Sannir karlmenn spyrja til vegar þegar þeir villast
Sönn saga frá manninum sem spurði til vegar
Er erfðafræðilega ómögulegt að sitja þegandi meðan hún leggur bíl?
Ökuhermir
Að búa með fullorðnum: Grundvallarmunur á því að búa með mömmu þinni og maka
Fyrirlestur og hlutverkaleikir
Hvernig á að fara með eiginkonunni í búðir
Slökunaræfingar, hugleiðsla og öndunartækni
Að muna mikilvægar dagsetningar og að hringja þegar þér seinkar
Komdu með dagatalið þitt í tímann
Að læra að lifa með því að hafa alltaf rangt fyrir sér
Einstaklingsráðgjöf og samtöl.
Áhugasamir hafi samband á e-maili.
13.1.2007 | 12:36
Uppskrift að bananabrauði
Jæja stelpur hérna kemur uppskriftin að bananabrauðinu sem ég gerði í gær. Ég fann uppskriftina einhvers staðar hjá mömmu en er búin að laga hana að mínum smekk og er alltaf að breyta uppskriftinni. Ef þið viljið get ég líka látið ykkur fá uppskrift að rosa góðu kryddbrauði sem ég bjó mikið til fyrir nokkrum árum.
Innihald:
1 egg
50-100 gr sykur
2 bananar (helst vel þroskaðir)
smá rúsínur, ca. lófafylli (minni sykur, meiri rúsínur)
250 gr hveiti ( ca. 4 dl) (má setja spelt, heilhveiti eða hvað sem er)
1 tsk. salt
1/2 tsk. matarsódi
ca. 1/2 tsk. kanill (má líka vera negull eða annað gott)
Byrjið á að þeyta saman egginu og sykrinum. Það þarf ekki að stífþeyta, má gera í höndunum. Bætið svo út í stöppuðum banönum, kryddum og rúsínum og að lokum hveitinu. Setjið í ílangt form og hitið í 175° heitum ofni í ca. 45-50 mínútur. Sérlega hentugt að henda í eitt svona brauð þegar maður á von á fólki í heimsókn. Tekur ekki meira en 5 mín.
Takk annars fyrir gærkvöldið stelpur. Það var MJÖG gaman. Ég held að það sé langt síðan ég hló svona mikið. Munið svo að taka næstu helgi frá fyrir afmælið hennar Hrefnu... Ég skal lofa ykkur því að ég verð í stuði og stefni á stífan dans Annars ef e-m langar að kíkja með mér í badminton eða skvass um helgina er ég meira en til.
Vá var annars að fatta hvað ég er ótrúlega súr að vera að setja uppskrift inn á bloggið mitt eins og e-r úber húsmóðir!
8.1.2007 | 21:29
Heilsuátak og smá fróðleikur dagsins í boði FL Group.
Jæja gaman að segja frá því að við skötuhjúin erum í heldur manísku heilsuátaki. Meira þó Gunni en ég er samt aktív í þessu líka. Við ákváðum að 2.janúar yrði upphafsdagurinn þannig að við erum búin að standast nammi og aðrar freistingar í eina viku. Sem ég er ekki frá því að það sé það lengsta sem ég hef hætt að borða nammi síðan ég hætti í seinasta nammibindindi en það varði í ein átta ár!! Djísus crazy person.... Ég er ekki alveg að fatta hvernig ég gat þetta svona lengi, en þó reyndar þegar maður er búinn að venjast bindindinu verður það meira að lífsstíl þannig að maður þarf ekki að hugsa út í það. Ég held samt að ég sé ekki að ýkja þegar ég segi að ég hugsa um nammi og ís og annað gotterí núna á cirka 2 mínútna fresti. Ég er bara svo ótrúlega mikill sælkeri. Við erum líka að reyna að æfa aðeins meira.. eða þar er að segja ég að reyna að fá hann til að æfa jafn mikið og ég. En það er líka gaman að segja frá því að bakið er að leyfa mér að skokka núna í klukkutíma án teljandi verkja eða ca. 12 km þannig að þetta er allt vonandi að koma. Ég er að vona að ég geti smátt og smátt kannski farið að hlaupa á brautinni langt interval, held að bakið sé ekki nógu gott fyrir spretti.
Var annars í fyrsta tíma í sjúkdómafræði taugakerfis í dag. Komst að skemmtilegri staðreynd. Þeir sem eru rétthendir eru með málstöðvar í vinstra heilahveli. Þeir sem eru hinsvegar örvhentir sem eru um 5% mannkyns eru með málstöðvarnar í báðum heilahvelum en dreifingin á því getur verið mjög einstaklingsbundin. Þannig að einstaklingar sem eru örvhentir eru líklegri til að vera með málstol. En undir málstol fellur bæði þegar fólk á í erfiðleikum með að tala og skilja talað mál. Þar fann ég skýringuna á því að ég virðist aldrei geta munað rétt nöfn á hlutum sem ég er að tala um, oftast segi ég dót... í staðinn fyrir það sem ég ætla að segja. Þetta gerir Gunna alveg geðveikan og hann þolir ekki þegar ég lendi í þessu því að honum finnst eins og ég geri þetta viljandi. Ég var því geðveikt kokhraust þegar ég kom heim áðan og sagði honum að þetta væri ekki ég... ég væri bara með málstol. Ég ætla líka að ofnota þessa skýringu ef ég man ekki nöfn á fólki sem ég hitti sjaldan eða bara við öll tækifæri sem að minnið brestur..... ég segi bara: Ég get ekkert gert að þessu, ég er með málstol.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.1.2007 | 00:47
Góð saga
Jæja jólin endanlega búin. Fór í mat til múttu áðan og svo var farið út til að klára flugeldana sem voru ekki sprengdir á gamlárs. Mamma var þar fremst á meðal jafningja... hún var alveg óð kerlingin. Setti heilan pakka af rakettum í standinn, kveikti á einni og hélt að þá myndi kvikna á hinum... við áttum fótum okkar fjör að launa í kjölfarið þar sem að rakettan flaug ekki nema um 1 meter upp í loftið. Þetta hélt svo áfram.... hún vildi helst bara að sprengja allt í einu. Mátti þakka fyrir að hún hafi ekki bara tekið kassann og kveikt í honum í heilu lagi. Hundurinn fékk að fara með... hann vildi bara borða stjörnuljósin. Var frekar stressaður greyið.
Skólinn byrjar annars á mánudaginn. Fáránleg stundataflan, flestir tímarnir eru eftir hádegi og aldrei sama stundataflan viku eftir viku þar sem að við erum að fá nýja kennara í hverri viku. Það gerir það að verkum að það er ansi erfitt að skipuleggja frjálsarnar hjá krökkunum. Ef það eru e-ir sem voru í frjálsum ¨in the old days¨ og langar að fá gott tímakaup við að hjálpa mér af og til þá mega þeir endilega bjalla í mig.
Ég lenti annars í skemmtilegu símtali í gær. Fyrir þá sem ekki vita þá er Lettnesk kona að leigja eitt herbergið í íbúðinni hjá mér og ég veit ekki hvað hún heitir.
Ring ring..
Ég: Halló?
Kona með pólskum hreim: Hæ, Þetta er Agnieska.
Ég: Já, hæ! (og hélt að þetta væri leigjandinn)
Kona: Ég er í þvottahúsinu og get ekki kveikt ljósið!
Ég: Já, ok, heyrðu ekkert mál, ég er heima og kem bara niður (samt hissa hvað hún talaði góða íslensku þar sem hún segir yfirleitt ekki orð hérna)
Ég mæti niður í þvottahús og það er enginn þar nema e-r strákur sem var að tengja þvottavél. Ég stend þarna í smá stund og var að velta þessu fyrir mér... hann horfir frekar undarlega á mig eftir að ég er búin að standa þarna í nokkrar mínútur þangað til að ég átta mig á þessu.
Á leiðinni upp fæ ég svo SMS frá sama númeri sem á stóð: Steinunn, ég er búin að tengja ljósið. Á ég að fara?....
Váááá hvað mér leið eins og fávita á eftir!!!!!
Ég ætla annars að sofa hressilega út á morgun þannig að ekki hringja í mig fyrr en í fyrsta lagi kl.15 ef þið voruð að spá í því.
4.1.2007 | 14:20
Hittingur??
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
29.12.2006 | 23:43
Annáll 2006
Ég ætla að nota tækifærið og "glogga" um árið eins og eldri kona sem ég þekki sagði um daginn. Helst ber að nefna í annáli 2006:
Snemma í janúar þessa árs fór ég á afdrifaríka æfingu, hélt ég hefði tognað heiftarlega í rassvöðva við spretthlaup, reyndist síðar hafa sprengt á mér liðþófa í bakinu. Búinn að vera strembinn bati.
Missti báða afana mína með stuttu millibili snemma þessa árs. Þetta tók á fjölskylduna og var erfiður tími. Jón afi, föðurafi minn varð bráðkvaddur í janúar á meðan pabbi var í fríi út á Kanarí. Kjartan afi, móðurafi minn lést í maí eftir margra ára baráttu við krabbamein. Þeir voru báðir einstakir á sinn hátt og er sárt saknað.
Fór í áætlaða æfingaferð til Spánar í apríl, hún eins og margt annað byrjaði ekki vel á þessu ári, veiktist heiftarlega á öðrum degi, fór á spítala tíunda daginn, hélt að ég væri að fara að kafna úr öndunarvegsstíflu. Ég skelli skuldinni alfarið á húsakynnin, sem lýsa sér best í 3 fm plastkofa uppi í sveit með örliltlum rafmagnsofni í "stofunni". Við vorum 3 stúlkurnar í húsinu, en það var samt ætlað fyrir 4. Ég missti algjörlega alla löngun til utanlandsferða eftir þessa ferð. En ef maður lítur á jákvæðu hliðarnar þá gat leiðin aðeins legið upp á við eftir þessa ferð. Við Sísí vinkona hétum hvorri annarri að svona ferðalag myndi ekki endurtaka sig.
Í endaðan maí vatt ég kvæði mínu í kross, skipti um vinnu og flutti með Gunna og Ottó hundinum mínum á Stykkishólm í sumar. Frábær tími. Ótrúlega gaman að skipta aðeins um umhverfi og geta farið í fjallgöngu hvenær sem ég vildi, kynnast nýju fólki, rifja upp tungumálakunnáttuna. Fór að vinna hjá Sæferðum sem er stærsta fyrirtækið í Stykkishólmi og var að sjá um samskipti við ferðaskrifstofur, taka á móti kúnnum og vinna bæði á skrifstofunni og stundum út á sjó. Fórum í margar skemmtilegar ferðir í sumar, bæði í fjallgöngur um Snæfellsnesið og veiðiferðir. Tókum okkur eina viku í að keyra hringinn í kringum landið um Verslunarmannahelgina. Gistum á Seyðisfirði eina nótt hjá mömmu hans Gunna og vorum svo á Unglingalandsmótinu á Laugum í frábæru veðri.
Systir hans Gunna, Heiða, átti svo þann 6.júlí strák sem hefur verið nefndur Egill Airi.
Ég hélt upp á afmælið mitt þann 19.júlí í bænum. Hrefna var svo yndisleg að skjóta yfir okkur húsi þar sem íbúðin var í útleigu. Fórum út að borða á Austur-Indíafjelaginu og fengum besta mat sem ég held að ég hafi á ævi minni smakkað. Það er ennþá verið að tala um matinn :) Fórum svo í dúndur partý til Hrefnu og það var auðvitað geðveikt fjör... ég var allavegna í það miklu fjöri að ég svaf sitjandi í sófanum inni í stofu hjá mömmu....
Svo tók loksins skólinn við aftur. Var orðin ansi fegin að setjast aftur á skólabekk eftir ársleyfi. Er núna á öðru ári í sjúkraþjálfun fyrir þá sem ekki vita. Skólinn gengur annars rosa vel og lítur allt út fyrir að jólaprófin hafi bara gengið glimrandi.
Fór svo í nokkurra daga ferð til Köben með mömmu og Betu systur í tilefni afmæli mömmu í október. Mamma var raunsæ og gerði sér grein fyrir því að nr.1 á forgangslistanum væri að versla. Það gekk með ágætum.
Svo er ég búin að vera að þjálfa krakka á aldrinum 6-11 ára í frjálsum í allt haust. Alls e-r hundrað stykki. Rosa fjör.. getur samt verið andlega mergsjúgandi... það lítur allt út fyrir það að við fáum þriðja hópinn núna eftir áramót þannig að fjöldinn geti farið upp í 150. Sem er auðvitað frábært ef við náum að halda þeim í sportinu þangað til þau verða eldri.
Svo núna um jólin er búið að vera nóg að gera, fullt af boðum, góðum mat og góðum stundum með fjölskyldunni. Erum núna á Selfossi í húsinu sem pabbi Gunna á og gerum vel við okkur á meðan þau eru á Kanarí í óvæntri brúðkaupsveislu eftir óvænt brúðkaup.
Annars er árið bara búið að vera stigvaxandi frábært... Er rosalega hamingjusöm, ástfangin og glöð og vona að þið séuð það líka. Sendi öllum vinum nær og fjær áramótakveðju og vonast til að hitta ykkur sem oftast á nýju ári. Vona líka að þið upplifið mikið af hamingju og ást og góðum stundum á nýju ári og munið að vera góð við ástvini ykkar og taka þeim aldrei sem gefnum
Kveðja
Anna Heiða
Dægurmál | Breytt 31.12.2006 kl. 02:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.12.2006 | 19:39
Stórar fréttir
Ég vil byrja á því að óska öllum vinum nær og fjær gleðilegra jóla... sumir eru á Íslandi, aðrir á Indlandi og enn aðrir í Danmörku. Ég vona að sem flestir hafi fengið jólakort frá mér. Kata, Oddný og Björg.. kortin ykkar eru ennþá hjá mér:) Annars kem ég sátt frá jólunum, fékk næstum allt sem ég óskaði mér nema hárþurrku og komst að því strax á jóladag að það hefði nú verið eiginlega eina gjöfin sem mig vantaði hvað mest þar sem ég lét klippa mig þannig að hún er orðin nauðsyn. Annars fengum við Gunni flestar gjafirnar okkar sameiginlegar... það er víst komið að því!!!! Ég fékk samt rosa flottar northface útivistarbuxur frá Gunna og enn aðrar frá mömmu, nokkrar bækur, útvarp, fullt af konfekti matvinnsluvél og grillsett . Allt saman frábærar gjafir. Annars fengum við stórar fréttir í gær... pabbi hans Gunna og konan hans Bjarney giftu sig víst í laumi þann 16.des.... og eru þau víst í semi-brúðkaupsferð á Kanarí núna og Kári og Brynhildur eiga von á barni. Fyndið að Gunni kom seinna um kvöldið og sagði við mig: Ég hef sko stórar fréttir... þá segi ég: Nú? Hverjir voru að gifta sig og hverjir eru óléttir... rambaði bara svona beint á þetta.
En annars þá bara vona ég að þið hafið það gott um hátíðarnar og munið að ég er alltaf til í gott teiti um áramót ef e-m langar að bjóða mér!
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.12.2006 | 23:54
Sauna - Nekt - Typpi = Slæmt!
Núna í dag þegar ég var í mínu fimmta jólaprófi af sex... hrundi yfir mig líka svona svakalegur prófleiði.... þetta er farið að minna á prófin í MR. Minnir reyndar að ég hafi farið mest í ca. 15 vorpróf. Annars þessi svakalegi prófleiði lýsti sér þannig að ég var í þriggja tíma prófi í rafmagnsfræði. Eftir ca. klukkutíma var ég búin að svara meira og minna flestu. Þá grípur mig einhver svona tilfinning að ég verði bara að koma mér út.... þannig að ég stóð bara upp og skilaði prófinu svo til hálfkláruðu. Ég vissi alveg að ég hefði getað setið þarna í klukkutíma í viðbót og klárað svörin sem ég var búin með en nei...Gunnarsdóttir hafði bara ekki andlegu getuna til að klára þetta. Hugsa að ég hefði alveg getað hækkað einkunnina um ca. heilan en mér var bara alveg sama. Ég er að vona að þetta versni ekki fyrir tölfræðiprófið á þriðjudaginn.... Þá kannski sleppi ég því bara að mæta!...
Sísí vinkona skrifaði annars skemmtilega færslu á blogginu sínu um Berlínarferð sem hún fór á dögunum. Þar gistu þær á heilsuhóteli þar sem naktir menn í saunu komu að máli. Það minnti mig einmitt á lífsreynslu sem ég lenti í þegar ég var ca. 11 ára. Þá var ég á ferðalagi með fjölskyldunni í Þýskalandi á voða fínu hóteli, Sheraton minnir mig. Ekki nema að þegar mín ætlaði að skella sér í búningsklefann og í laugina þá mætti ég á leiðinni þýskum sköllóttum miðaldra manni, NÖKTUM. Held að þetta hafi verið í fyrsta sinn sem ég sá typpi á karlmanni síðan ég man eftir mér. Ég hélt í fyrstu að maðurinn væri kannski með lélega sjón og hefði ruglast á klefa en allt kom fyrir ekki, þegar að lauginni var komið voru ekkert nema typpi og píkur út um allt. Þar sem að hafði aldrei heyrt um slíkar nýlendur sökum ungs aldurs var þetta átakanlegt. Ég held að ég hafi skemmst á sál við þessa uppákomu. Enn þann dag í dag finnst mér typpi e-ð hálf kjánaleg.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.12.2006 | 01:43
Hvernig Ísland vilja Íslendingar hafa?
Það var ansi skemmtilegt innslag í sjónvarpinu áðan þar sem bandarískur prófessor, sennilega í hagfræði, sat undir fyrirspurnum Ólafs Ragnars og fleiri sem ég náði ekki nöfnunum á. Þátturinn hefur sennilega verið tekinn upp fyrir hartnær 20 árum. Þar sem ég hef ekki menntun í hagfræði fannst mér þetta ansi skemmtileg umræða og þrátt fyrir menntunarskort minn sýnist mér að margar af þeim róttæku hugmyndum þessa manns séu við lýði hér á landi í dag. Eins og t.d. hvað varðar skattlagningu á hátekjufólki. Meginefni þessa viðtals var það að maðurinn vildi koma á svipuðu fyrirkomulagi og við var haft í BNA. Íslensku prófessorarnir voru reiðir, það var gaman, þeir voru að verja það fyrirkomulag sem átti sér stað á Íslandi þar sem að möguleika allra væru jafnir frá fæðingu til góðrar menntunar og lífskilyrða og gaman að sjá hvað þeir voru harðákveðnir í því að hvergi væri til betra hagkerfi en á Íslandi. Útlenski maðurinn hélt því fram að á Íslandi væri bananalýðveldi og líkti okkur við kommúnisma Stalíns. Honum fannst alveg ótækt að öll börn fengju ókeypis menntun. Það sem sló mig hvað mest var að þrátt fyrir að mér þætti hugmyndir þessa manns alveg fráleitar og ættu ekki að fá hljómgrunn á Íslandi, þá áttaði ég mig á því að Ísland er algjörlega að verða eins og BNA, og þá verð ég reið. Hvað eru Íslendingar að spá??? Við höfum alla möguleika á að útrýma fátækt á Íslandi, enginn þyrfti að lifa undir fátæktarmörkum. Hægt væri í raun að búa til einhvers konar útópíu hagfræðingsins á Íslandi. Það eru allar aðstæður til þess. Okkar sérstæða sem þjóðar felst í því að hér er gríðarlegur hagvöxtur, hér er mikið af gríðarlega vinnuglöðu fólki og það er rík hefð fyrir jöfnuði á Íslandi. Ég harma það innilega ef stjórnmálamenn ætla sér að fylgja því velferðarkerfi sem hefur verið við lýði í BNA í langan tíma þar sem að ójöfnuður er gríðarlegur og fólk fæðist inn í ákveðna stéttarskiptingu sem erfitt er að brjótast úr. Á Íslandi ætti ekki að vera til stéttaskipting en þrátt fyrir það er til fólk á Íslandi sem telur sig vera af æðri stétt en aðrir og er það lýsandi fyrir hégómakenndir sem eru að brjótast út hérna. Ég held að við eigum okkur ennþá viðreisnarvon sem þjóð. Ég held að fyrsta skrefið í því væri að koma sjálfstæðisflokknum úr ríkisstjórn. Þar sem það hefur sýnt sig með tímanum og mýmörgum dæmum að allt sem hann stendur fyrir er endurspeglun kapítalismans í BNA.
Þessi þáttur vakti mig því svo innilega til umhugsunar um hvers konar Ísland ég myndi vilja hafa. Ég vona að fleiri hafi séð þennan þátt og lært vel af.
9.12.2006 | 15:26
Arnar Erwin Gunnarsson Íslandsmeistari í atskák
Eldri færslur
- Febrúar 2009
- Janúar 2009
- Desember 2008
- Nóvember 2008
- Október 2008
- September 2008
- Ágúst 2008
- Júní 2008
- Maí 2008
- Apríl 2008
- Mars 2008
- Febrúar 2008
- Janúar 2008
- Desember 2007
- Nóvember 2007
- Október 2007
- September 2007
- Ágúst 2007
- Júlí 2007
- Júní 2007
- Maí 2007
- Apríl 2007
- Mars 2007
- Febrúar 2007
- Janúar 2007
- Desember 2006
- Nóvember 2006
- Október 2006
- September 2006
- Ágúst 2006
- Júlí 2006
- Júní 2006